You are here

Íslenskar afreksíþróttir

Lærum af fortíðinni, vinnum í núinu og breytum rétt í framtíðinni

Inngangur


Mig hefur lengi langað til að skrifa nokkrar línur um íslenskar afreksíþróttir og bara leggja orð í belg yfir því sem gæti kannski gert það að verkum að umræðan verði til þess að við náum betri árangri í framtíðinni. Ég hef nefnilega trú á því að með rannsóknum, mannlegri skynsemi og reynslu vinnum við í Ólympíugull í framtíðinni. Mín reynsla eru 8 Ólympíuleikar og 37 stórmót eins og HM, EM og þá meðtalið ÓL. Kannski hef ég eitthvað fram að færa? 

Fjármál íþróttahreyfingarinnar

Töluverð umræða hefur verið undanfarið og sérstaklega í lok 2011 í fjölmiðlum í sambandi við fjárframlög ríkisins til íþróttamála og ber að fagna því en sitt sýnist hverjum.

Mér finnst að áherslan eigi að vera á byggja góða framtíð fyrir heildarmyndina sem hlýtur að

vera heilbrigði almennings, barna og unglinga starf, íþróttir fatlaðra auk hinna hefðbundnu afreksíþrótta. Hagrænt gildi íþrótta og líkamsræktar er búið að margsanna sig og auðvitað viljum við öll fá miklu meira fjármagn til forvarnarstarfs og íþróttaiðkunar.

Umræðan hefur einkennst meira að því að finna sökudólga sem í þessu tilfelli eins og mörgum öðrum eru ráðamenn þjóðarinnar. Það hefur meira segja gengið svo langt að halda því fram að stjórnmálamönnum sé alveg sama um árangur okkar íþróttafólks og íþróttamennirnir hafa sjálfir sýnt visst vanþakklæti í garð þeirra. Gerum okkur grein fyrir því að stjórnmálamenn eru valdir af okkur og eru bara fólk eins og við. Þeir fara á mót og kappleiki og halda með sínum liðum og eiga sína uppháldsíþróttamenn.                                                                                                             Auk þess er alltaf verið að bera saman Norðurlöndin á miðað við höfðatölu þegar er talað um fjármál og hér hefur það verið gert eins og svo oft áður, sem er siður hér á landi, en mjög oft er sá samanburður algerlega óraunhæfur og óþarfur. Við eigum að hætta að tala um hvað við erum góð á miðað við hvað við erum lítil. Við tölum okkur sjálf inn í vissa minnimáttarkennd með þessu sem gerir það að verkum að við náum ekki árangri á alþjóðamælikvarða og sættum okkur við það.

Íslenskur efniviður

Það liggur í augum uppi að sá efniviður og það hráefni sem er til í íslenskum krökkum, unglingum og fullorðu fólki er mjög ákjósanlegt til íþróttaiðkunar. Við erum upprunalega víkingar sem komum hingað og okkar þjóðfélag byggðist upp á vinnusemi, eljusemi og kappsemi hvort sem það var við fiskveiðar eða landbúnað. Þannig að líkamlegt atgervi er betra hér á landi en í nágrannalöndunum og líklega andlegur styrkur líka. Aftur á móti er það líka augljóst að þetta hefur boðið mikinn hnekki undanfarin ár þegar þjóðin gleymdi sér algerlega í sukki skyndibitastaða sem hefur orðið til þess að við erum næst feitust í heimi og eigum heimsmet í gosdrykkju og sælgætisáti. Ofan á þetta bætist að íslensk þjóð er mjög fljót að tileinka sér tækninýjungar og öll kyrrseta sem fylgir því kyndir ekki undir afrek í íþróttum auk þess sem við erum líklega næst mesta ef ekki mesta bílaþjóð heims. Þá hefur skólaleikfimi eða íþróttir í skólakefinu fengið minni tíma eins og víðast hvar annars staðar í Evrópu sem er í sjálfu sér  algerlega óskiljanlegt.

Umhverfið

Ég heyrði einu sinni fyrir ´´hrun´´, prófessor í félagsfræði segja að íslenskt þjóðfélag væri mjög illa til þess fallið að búa til afreksíþróttamenn. Hér gengi allt út á græðgi og endanlausa vinnu til þess að kaupa meira og meira, hvort sem það væri eitthvað sem þig vantaði eða ekki. Hér eyddu allir peningunum sínum í að kaupa bíla, sem er líklega sú lélegasta fjárfesting sem hægt er að gera og gengu um í rándýrum tískufatnaði með alla nýjustu tækni í vasanum, en vissu alls ekki af hverju ef einhver spyrði. Þetta er að mörgu leiti rétt og hef ég samanburðinn frá mörgum öðrum löndum þar sem ungt fólk eyðir peningunum sínum í íþróttirnar og sættir sig við að vera án bíls sem dæmi sé tekið, þróunin er þó sú sama og hér en hægfarari. Það er líka annað sem er öðruvísi á Íslandi en annars staðar í mörgum öðrum löndum, hér vilja allir eiga sitt eigið húsnæði sem er í sjálfu sér allt í lagi en þá er maður oft að taka lán bæði fyrir bíl og húsnæði á sama tíma og maður er að berjast í að reyna að koma sér áleiðis sem afreksíþróttamaður. Þetta er ekki vinnandi vegur en hefðirnar hér heima gera þetta að verkum og allir vilja vera eins. Erlendis leigja sumir húsnæði allt sitt líf og telst ekkert skrýtið á neinn hátt.

Mismunandi íþróttagreinar

Þegar rætt er um peningamál og afreksmennsku þá er auðvitað algerlega vonlaust að setja alla undir sama hatt. Í vissum íþróttagreinum eru íslenskir íþróttamenn milljónamæringar sem spila í liðum erlendis. Þeir sitja við sama borð og aðrir ef þeir bara standa sig. Í flestum tilfellum standa þessir menn og konur sig vel sem er líka einkenni Íslendingsins, eljan, vinnusemin og kappsemin kemur hér inn sem er okkur í blóð borin vegna uppruna okkar og að við höfum búið í þessu landi þar sem duglegt og harðgert fók býr og er tilbúið að leggja hart að sér. Þetta er mikilvægt í afreksíþróttum. Aftur á móti eru aðrar íþróttagreinar og margar Ólympíugreinar sem velta mjög litlum peningum og eru þá styrktar af mismunandi aðilum. Hér vantar mikið upp á þannig að við getum talist samkeppnishæf á alþjóðagrundvelli. Aftur á móti getum við líka gert þetta á annan hátt þar sem eðli okkar er annað sem byggir á öðrum grunni auk þess sem okkar þjóðfélag er mjög lítið sem gefur vissa möguleika sem aðrir hafa ekki. Við þurfum örugglega ekki eins mikla peninga og t.d. Bretar, ég veit hvernig þeirra kerfi er og við getum lært margt af þeim. Það er samt sem er komið algerlega út í öfgar hvernig þeirra afrekskerfi spillir íþróttamanninum og gerir þessa kynslóð að kröfuhörðum ungum einstaklingum sem vilja fá allt en gefa ekkert. Ég vona að það verði alltaf þannig á Íslandi að íþróttamaðurinn og þjálfarinn geri sér grein fyrir því að ´´æfingin skapar meistarann´´ en ekki gallinn.  

Þekking

Það er komin gríðarleg þekking á Íslandi í vissum íþróttagreinum og margir þjálfarar eru mjög góðir og standast samanburð á miðað við erlendis. Aftur á móti eru margir af þessum þjálfurum erlendis og nýtis þekking þeirra lítið heima, nefnir hér að nefna handknattleik þar sem við eigum heimsfræga þjálfara út um allt sem gætu mjög líklega gert Ísland af Ólympíumeisturum í handknattleik ef öllu væri tjaldað til bæði í karla og kvennaflokki. Mér finnst skrýtið að þetta sé ekki gert. Mér finnst líka liggja í augum uppi að innan tíðar eigum við að vinna gull á Ólympíuleikum í frjálsíþróttum hefðin er til staðar, öll þekking og auðvelt að sækja enn meiri þekkingu erlendis ef til þyrfti þar sem heimurinn er orðinn svo lítill með tilkomu internetsins. Þekking þjálfara er grunnurinn fyrir árangri í íþróttum og svo möguleiki íþróttamannsins til þess að stunda íþróttagreinina með aðstoð þjálfarans.

Skipulagning íþrótta á Íslandi

Íþrótta og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands sjá um alla íþróttastarfsemi á Íslandi í samvinnu við sérsamböndin, félögin og einstaklingana sem vinna í félögunum bæði íþróttamennina sjálfa og svo þjálfara og aðra sem tengjast starfinu. Skólakerfið er svo sér eining sem sér um almenna hreyfingu barna og unglinga og svo eru íþróttir almennings sem eru tengdar líkamsræktarstöðum og annari starfsemi.

Það er mikilvægt að sjá þetta allt í samhengi eins og áður er getið um í þessari grein. Ef efniviðurinn er til staðar og við Íslendingar fæðumst sterk eins og lög og reglur gera ráð fyrir þá er heildarmyndin ótrúlega mikilvæg frá hreyfingu bara og unglinga og alveg upp úr ef við eigum að geta alið upp afreksfólk í framtíðinni.

Ísland draumaland afreksíþrótta

Ég hef sagt það áður og segi það enn að Ísland gæti verið draumaland afreksíþrótta. Öll íþróttaaðstaða er margfalt betri á Íslandi í dag en var hér áður fyrr og aðeins herslumuninn vantar upp á til þess að standast nágrannalöndunum á fæti í þeim efnum. Þjálfarar er góðir og geta auðveldlega menntað sig í gegnum nútíma tækni. Við höfum hefð fyrir árangri í vissum íþróttagreinum og það skiptir miklu máli. Að halda utan um allt Ísland er eins og að halda utan um eitt félag erlendis, fólksfæðin vinnur þar með okkur. Þá geta kannski sumir sagt að við séum allt of fá til þess að geta verið best. En dæmin sanna að svo er ekki og það nærtækasta er silfrið hjá handboltalandsliði karla í Peking. Þetta gengur út á það að finna efnin og þau eru á hverju götuhorni á íslandi. Það er frekar vandamálið að skilgreina hvað það er sem er að vera efnilegur? Það er auðvitað að hafa líkamlega, andlega sem og tæknilega hæfileika til þess að ná árangri, það hafa allir Íslendingar sem nenna þessu. Það er miklu heldur hitt, er viljinn, eljan, og umgjörðin þannig að ég vilji eyða tíma mínum í þetta?

Hvað þarf þá?

Hvernig getum við þá náð í gull á Ólympíuleikum eða orðið best í heimi íþróttanna? Það er tiltölulega auðvelt að setja það reiknisdæmi upp. Ef umgjörðin er sú sama eða betri en hjá keppinautunum en hráefnið á Íslandi er betra þá verðum við best. Það þýðir þá að umgjörðin erlendis er betri og þess vegna vinnum við ekki. Einfalt!

Íþróttamaðurinn og þjálfarinn ná árangri saman

Nútíma einstaklingsíþróttamenn eru yfirleitt með þjálfara, aðstoðarþjálfara, hafa aðgang að sérfræðiþjónustu o.s.frv. Ef við segjum að viðkomandi sé 18-20 ára og hafi tekið ákvörðun um að fara alla leið í sinni grein og verða einn af þeim bestu eða jafnvel bestur í heimi þá er þetta spurning um 10 ár og 10.000klst og þá kemur Gullið. Kannski ekki svo einfalt en mikið liggur í því. Það er tiltölulega vonlaust að ná toppárangri ef íþróttamaðurinn og þjálfarinn eru ekki í þessu meira og minna saman sem í fullri atvinnu. Sérfræðiliðið verður líka að vera sérfræðingar fyrir íþróttagreinina , ef svo er ekki þá eru keppinautarnir betri og þá vinna þeir. Einfalt! Þessu hefur farið mikið fram hér heima á undanförnum árum en ég veit hvernig þetta er víða erlendis og við eigum ennþá töluvert í land hér.

Ósanngjarn samanburður

Við erum lítil þjóð og stundum höldum við að við séum miðja alheimsins. Aftur á mót er Ísland svo lítið og áhrifalaust úti í hinum stóra heimi að flestir vita ekkert um landið meira að segja á Norðurlöndunum, vita ekki einu sinni hvernig íslenski fáninn er og mjög oft þegar talað er um Norðurlöndin þá er Ísland ekki með. Þess vegna er svo mikilvægt að íþróttamenn eða listamenn eins og Björk og núna síðast Baltasar Kormákur nái árangri á heimsvísu þar sem það er í sjálfu sér það eina sem vekur athygli á Íslandi og mjög einföld leið til auglýsingar á landinu. Eyjafjallajökull bjargaði málinu þegar hann fór að gjósa en síðan þá ekki neitt. Það getur vel verið að við höldum í okkur lífinu með því að hugsa stórt en mér fannst það ósanngjarnt um daginn þegar verið var að bera okkur saman við Norðmenn og fjárveitingar til handbolta kvenna. Noregur er líklega eitt ríkasta land í heimi með alla sína Olíu og við erum að koma út úr erfiðri nútíma kreppu eftir að hagkerfi og bankakerfi okkar hrundi. Auk þess hafa norskar handknattleikskonur unnið allt sem hægt er að vinna undanfarin ár og eðlilegt af þeim ástæðum sem ég nefni hér að Norðmenn séu að veita meira fjármagni í handbolta kvenna en hér heima.

Eins og ég sagði í byrjun greinarinnar erum við þó öll sammála um að við viljum meira fjármagn til íþrótta og auðvitað á það að koma úr ríkiskassanum, þetta eru smáaurar sem við erum að tala um en geta lyft Grettistaki í sambandi við íþróttaárangur á heimsvísu.

Draumur eða veruleiki

Það er mikill munur á draumi eða veruleika þegar kemur að því að ná árangri í íþróttum á heimsmælikvarða. Margir láta sig dreyma en engum hefur tekist hingað til að upplifa drauminn um gullið á Íslandi ef við tölum um Ólympíuleika. Forsetinn segir líka beint framan í þjóðina í beinni útsendingu að stærsti sigurinn sé að sjá svo maraga Íslendinga ganga inn á völlinn ef við tökum bara sem dæmi hvað Ólafur Ragnar sagði við opnunarhátíðina á Ólympíuleikunum í London. Ég er ósammála þessu þegar kemur að þeirri staðreynd að við erum að fara þarna til þess að reyna að ná árangri við þá bestu í heimi. Þá eru sumir í hópnum sem eru ungir og efnilegir og upplifa drauminn við inngönguna inn á Ólympíuleikvanginn og eiga svo framtíðina fyrir sér kannski á næstu leikum. En oft á tíðum stoppum við þar og það verður ekkert meira. Ég hef oft sagt að við Íslendingar erum þjóð með innbyggða minnimáttarkennd þar sem við tölum um að ´´þetta reddist´´ en svo gerir það það bara ekki. Við kunnum allt best og þurfum enga hjálp en svo gengur það ekki heldur upp, dæmi um þetta er´´ hrunið´´ góða. Við héldum að bankarnir okkar og þeir sem þeim stjórnuðu væru bara að leggja heiminn undir sig, við trúðum því flest okkar. Það er enginn munur á þessu í íþróttum. Við lifum því í þeim draumi að vinna gull á Ólympíuleikum og sá draumur á að vera til staðar en líka það sem þarf að gera í 10 ár til þessað draumurinn verði að veruleika. Við vinnum bara ef umgjörðin er jafn góð og hjá keppinautunum og við erum með betri efnivið, annars töpum við! Veruleikinn er því sá að ef við erum að vinna 8 tíma á dag og erum svo íþróttamenn í aukavinnu og þjálfarinn vinur allan daginn við eitthvað annað en þjálfun, höfum minni peninga en keppinautarnir og erum bara með almenna sérfæðiþjónustu svona inn á milli þá gengur dæmið ekki upp.

Orkan sem þarf að nýta

Ég talaði um vinnusemi, eljusemi og kappsemi, ég get líka sagt vilji, geggjun, einfaldleiki, bjartsýni, rugl, óskipulag.....o.s.frv. sem einkennir Íslendinginn, ekki taka neikvæðu eiginleikana illa upp, ég er einn af ykkur og er líka að tala um sjálfan mig. Er hægt að nota alla þessa jákvæðu og svokölluðu neikvæðu eiginleika okkar til þess að búa til eitthvað sérstakt sem er bara eins og það er og er íslenskt? Já, þetta er allt orka, og við eigum kannski að nota ´´þetta reddast´´ sem íslenska orku til þess að ná árangri en ekki til þess að brjóta okkur niður. Við erum eins og við erum og engin ástæða til að breyta okkur of mikið. Viljum við verða eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar þar sem Svíar nenna ekki í vinnuna og Norðmönnum er alltaf illt einhversstaðar? Auðvitað er þetta ekki út af neinu en því að þessar þjóðir og þegnar þeirra hafa það svo gott að þau hafa ekki yfir neinu að kvarta lengur og þá er auveldast að væla yfir bakverk og fara ekki í vinnuna eða skólann og komast upp með það. Það gerir það að verkum að komandi kynslóðir verða engir afreksmenn í íþróttum með þessum hugsunarhætti.

Framtíðin

Nú hef ég aðeins velt fyrir mér fortíðinni og hvar við erum í ferlinu í nútíðinni og tengt það mikið þjóðfélaginu sem slíku og hver við erum. Hvernig getum við þá gert þannig að afreksíþróttir á Íslandi verði betri í framtíðinni?

Við erum með efniviðinn-
Við erum með betri og betri aðstöðu-

Við erum með betri og betri þekkingu-
Okkar vantar betri umgjörð-(fjármagn, sérfæðiþjónustu, eftirlit)
Okkur vantar meira skipulag og aga-
Okkur vantar meiri trú og sjálfsálit-

Ekki veit ég hvort að þið séuð sammála mér með þetta en ég stend samt og fell með því sem ég segi hvort sem einhver túlkar það sem bull eða kannski að það sé eitthvað til í þessu.

Lokaorð

Hver er munurinn á Þjóðverjum og Íslendingum, eða Svíum og Íslendingum, eða Svisslendingum og Íslendingum, hver er munurinn, líkamlega.....enginn,andlega.....enginn,.....tæknilega.....enginn???

Við erum öll fædd inn í þennan heim svipuð í þessum löndum, sumir eru stærri en aðrir og sumir eru sterkari eða hafa mismunandi hæfileika en ef við alhæfum sem við erum svo góð í að þá erum við öll svipuð.

Það að vinna gull á Ólympíuleikum hefur því að mínu viti með að gera að íslenski íþróttamaðurinn eða liðið trúi því, hafi umgjörðina til þess að stunda greinina, skipuleggi sig betur og hafi meiri aga í daglega lífinu og hætti að hugsa um hve fá eða lítil við erum.

 

Kveðja

Véddi